M.C. Drullusokkar Stofnað 04.05.06.

Hvetjum félagsmenn til að senda inn myndir af sér og hjólunum sínum í félagaskrána.
Einnig ef þið eruð með skemmtilegar hjólamyndir, fréttir eða aðrar tilkynningar sem eiga heima hér.
[email protected]

07.07.2015 00:11

Landsmót

Kíkt í skúrinn,,,,

Kíkið á þennan þátt, viðtal við Darra formann og flott umfjöllun um landsmótið.

01.07.2015 11:47

Tjöldun á veitingatjaldi



Tjöldun á veitingatjaldinu mun fara fram kl 17:00 á morgun fimmtudag.


Endilega látið það berast, koma með 17mm lykil eða topp og skrall.

29.06.2015 14:04

ATH

A T H

Vegna slæmrar veðurspár hefur tjöldun á veitingartjaldinu verið frestað.

A T H

28.06.2015 22:28

Enn af landsmóti

Næstkomandi þriðjudagskvöld kl 20:00 ætlum við að hittast í Gullborgarkrónni og taka lokafund fyrir mótið, best er að fá sem flesta. Ég trúi ekki að Bryndís svíki okkur annan fundinn í röð með vöfflurnar.


Svo á mánudaginn (á morgun) kl 17:00 verður veitingatjaldið sett upp í dalnum, allir að mæta með 17mm topp og skrall.


(á mánudaginn 1717)

25.06.2015 09:09

Fimmtudagshittingur



Bryndís lofaði að koma með vöfflur í kvöld.

Í kvöld er síðasti fimmtudagshittingurinn fyrir landsmótshelgina okkar, við vonumst því til með að sjá sem flesta í kvöld. Það eru ýmsir lausir endar sem þarf að ganga frá, og því gott að fá sem flesta til þess að hjálpa til.
Vonumst til að sjá sem flesta.

Kv. stjórnin

23.06.2015 17:36

Enn af Landsmóti

Margt er búið að ganga á hjá okkur í undirbúningnum en nú eru hlutirnir farnir að skírast og erum við bara nokkuð bjartsýn hér í eyjum á gott mót. Verðin eru komin á hreint ; 7000 kr. á mótið, 4000 kr. fyrir dagpassa og þeir sem gista á í dalnum þurfa að borga 1100kr fyrir nóttina + rafmagn ef þess er þörf. Á svæðinu er salernis og sturtuaðstaða.

Dagskráin verður svipuð og í drögunum, en enn á eftir að klára að tímasetja viðburðina nákvæmlega, og aðeins hefur bæst inní. En helstu punktar eru : Grill, súpa, Sniglabandið, Jarl Sigurgeirs, Drullusokkaleikarnir í samstarfi við Súperman og frú, King Johnsen, og slatti af bulli með í bland.

Við vonumst til að sjá sem flesta, Drullusokka og ekki sokka, þetta verður þræl gaman hjá okkur.

01.06.2015 19:31

Meira um sjómannahelgi og landsmót




Eins og áður hefur komið fram þá verður skoðunardagur og pulsu/pylsugrill á fimmtudaginn, á föstudagskvöldinu verður svo grill og fínerí á skipasandi, og á laugardaginn verðum við með mótorhjólasýningu á Skipasandi opið verður í húsnæðinu hans Rabba á Dala-Rafn og hjá Darra og Tryggva
, þar sem hjólum verður raðað uppi inni og úti ef vel viðrar. Svo kemur Jón í JHM sport í heimsókn og kynnir fyrir okkur allt það nýjasta í mótorhjólaaukahlutum og fatnaði, hann verður í húsnæðinu hans Gilla Vals á Skipasandi. Þannig að Drullusokkadagskráin fyrir sjómannhelgina er þræl spennandi.




Landsmótsfréttir.

Allt er á fullu í undirbúningi fyrir landsmótið. Verið er að leggja lokahönd á leyfis- og pappírssúpuna sem mótinu fylgir, við verðum svo sem fyrr segir í Herjólfsdal með lítið svið þar sem Sniglabandið mun að sjálfsögðu troða upp, og eru þeir (örugglega) búnir að eyða miklum tíma á æfingum fyrir giggið. Það er verið að pæla í óskalagaþema á föstudagskvöldið og trilltum dansleik á laugardagskvöldið. Aukaferð verður farin frá Landeyjahöfn seinnipartinn á fimmtudeginum 2. júlí, töluvert er búið að bóka í ferðina og hvetjum við fólk til að klára það tímanlega, og ekki er verra að hafa strappa með sér, þeir eru þægilegri en bílastrapparnir um borð.

Endilega deila þessu Facebookinu.

Kveðja Stjórnin.

30.05.2015 09:49

Sjómannahelgin




mynd tekin á sjómannadaginn 1971  Sigurgeir.is


Nú fer að líða að sjómannahelginni. Drullusokkarnir verða með smá dagskrá, sem byrjar með skoðunardeginum og pulsugrilli fimmtudaginn 4. júní kl 13:00 og verður fram eftir degi. Á föstudaginn 5. júní ætlum við að hittast á Skipasandi ( planinu þar sem gamli slippurinn var. ) um kvöldið og grilla og snæða saman jafnvel ræða saman líka. Drullusokkarnir bjóða uppá matinn en hver og einn sér um sína drykki
. Við vonumst til að sjá sem flesta.







Einnig viljum við hvetja þá landsmótsgesti sem ekki eru búnir að panta í skipið til þess að fara að klára þau mál. Alltaf betra að vera tímalega .

Kveðja stjórnin.

19.05.2015 09:43

Skoðunardagur Frumherja og Drullusokka








Þá fer að koma að skoðunardeginum árlega.
Hann verður fimmtudaginn 4 júní, Jónas byrjar um kl 13:00 og verður fram eftir degi. Pulsurnar verða á sínum stað og ætlar heildsalan að prufukeyra nýja uppskrift af remúlaði og sjá hvernig það fer í belginn á alvöru Drullusokkum og öðru mótorhjólafólki. Við treystum á að Jens hinn rauði verði vel stemmdur á grillinu með nýrakaðan hanakamb.

Vonumst til að sjá sem flesta.


Stjórnin.

18.05.2015 08:15

Bretatúr

Ferðalag Breskt er Best !!!!


 

Ferðalag Breskt er Best ??? Það eru ástæður fyrir öllu og ástæða nafns þessarar greinar er sú að fyrir nokkrum dögum ákváðu fjórir aðdáendur/eigendur breskra mótorhjóla að skella sér með östuttum fyrirvara til Englands á mótorhjólasýningu á Stafford, en þarna eru hundruðir sölubása með nýjum og gömlum hlutum í bresk mótorhjól (jú svo þrjár skrúfur í eitthvað annað!!!). Einnig eru til sýnis hundruðir eldri mótorhjóla, þ.e.a.s. hjól sem sýnd eru til að taka þátt í svona "fegurðarkeppni" og svo hjól margra mótorhjólaklúbba, sem og hjól sem bjóða á upp til hæstbjóðanda, svo eru einstaklingar með hjól sýn til sölu, svo það er nóg að skoða og gera. Ekki má gleyma að alltaf eru frægir mótorhjóla keppnis ökumenn sem segja sögur sýnar á vissum tíma á þessum tveimur dögum sýningarinnar ofl. ofl.

 

Það verður að kynna ferðalangana til sögunnar, fyrstan skal kynna mótorhjólamann númer eitt á Íslandi: Hilmar Lúthersson=tæmerinn, gamli, Þverhaus nr. 2, Drullusokkur nr. 0 og Snigill nr. 1, Birgir Jónsson=Biggi Breti, Hjörtur Jónasson skipstjóri. Þessir þrír vita meira um bresk mótorhjól en nokkur annar hér á landi, einnig eru þessir vitringar með betri "mekkum" landsins þegar kemur að uppgerð sem og þegar gera þarf að gera við þessa eðalgripi sem gerist nú nær aldrei þegar þeir hafa farið höndum um þau. Ja svo sögu-höfundur.

 

Ferðalagið hefst á föstudegi og flugvélin á að fara í loftið kl. 07:40 og þar sem samferða- félagar mínir búa útá landi þá voru þeir mættir tímalega hjá mér !! eða um kl. 04:00 til að missa örugglega ekki af vélinni !! Því vorum við búnir að borða morgunmat í umbreyttri flugstöð þegar við sjáum nokkra menn sem við þekktum. Þarna voru mættir Torfi Hjálmarsson gullsmiður/blikksmiður/blöndungasérfræðingur ofl. og sex aðrir sem hann tjáði okkur að væru trúvillingar því þeir ættu ekki bresk mótorhjól (kannski smá ýkjur). Torfi sagði okkur að þeir væru líka að fara á Stafford sýninguna og hann hefði verið að skipu- leggja þessa ferð í um ár !!! Af hverju svo lengi ?? Jú sko sagði hann varð að finna menn sem hefðu engan áhuga á breskum mótorhjólum og skilyrði að fá að fara með væri að koma með tómar feðartöskur sem hann gæti nýtt sér til að taka með varahluti heim !!! En Torfi á mjög stórt safn mótorhjóla af ýmsum gerðum og nokkur þeirra eru í uppgerð. Við í hópnum Breskt er Best ákváðum með "samþykki" Torfa að hans hópur myndi heita Torfi og Dvergarnir sjö !!

 

Vélin lendir í London á réttum enskum tíma, en eins og allt annað breskt sem fer hratt yfir þá flýta þeir klukkunni um eina klst. á vorin. Síðan var náð í bílaleigubifreið vora sem átti að vera VW Passat en reyndist vera Ford Mondeo. Síðan var stefnan tekin á Birmingham, en þar er eflaust lang stærsta mótorhjólasafn breskra mótorhjóla í heiminum. Þetta er heimfrægt safn og ekki varð það minna þekkt eftir að stór hluti þess brann og mjög mörg mótorhjól eyðilögðust. Við höfðum held ég allir heimsótt þetta safn bæði fyrir og eftir brunann. Við náðum vel rúmum tveimur tímum þarna, en það má alveg eyða heilum degi þarna og ekki láta sér leiðast. Við fréttum síðar að Torfi og Dvergarnir hefðu náð um tíu mínútum þarna, ja sko þeir komu sko með sömu flugvél !! Ástæða þessa segir sagan er sú að þeir gátu ekki komið sér saman um hvaða litur ætti að vera á bílaleigubifreiðinni !!! Einnig var sagt að þetta hefði fallið á jöfnum atkvæðum= lýðræði gengur ekki. Hjá okkur var þetta einfalt= það er alltaf bara einn skipstjóri á hverju skipi= Hjörtur.

 

 

Mættir á hótelið á góðum tíma sem var um þrjátíu mínútum frá sýningunni, síðan var snæddur kvöldverður og farið í háttinn snemma því 3/4 hlutar hópsins telst til eldri borgara eins og sést á aðgöngummiðum þriggja ferðalanga=Senior Citizens !! Mætt var í morgunmat kl. 06:30 þó það væri ekki opnað fyrr en kl. sjö !! Mætt á sýninguna tímanlega (ja svona okkar á milli um einum og hálfum tíma fyrir opnun) en sýning hefst stundvíslega kl. 09:00. Menn voru spenntir og tilbúnir með langa innkaupalista sem og stórar parta-bækur, já allir nema söguhöfundur, hann hafði ekki leyfi fyrir innkaupum, var sko búin að kaupa alltof mikið fyrir sýninguna sem eins og áður er fram komið var ákveðin með mjög skömmum fyrirvara. Það er farið í röð og þegar sýningarhliðið opnar er þetta eins og auglýst stórútsala kjóla fyrir konur !! Nei nei bara smá ýkjur. Það er ákveðið að menn skipti liði og síðan að hittast í hádeginu til að borða. Ég get ekki sagt hvað félagar mínir gerðu þennan fyrri dag, en ég gekk um og skoðaði, spjallaði við þá sem voru að sýna varning og hjól. Á ferðalagi mínu hitti ég af og til nokkra úr Dvergahópnum en ekki Torfa. Þeir voru svona með starandi augnaráð og spurðu mig nokkrum sinnum: Eru virkilega engin japönsk hjól á þessari sýningu !! Ég svara. Nei það er á haustsýningunni. Reyndar fréttist af einu XS650 Yamaha til sölu þarna, en það er bara sæmileg eftirlýking af Breta svo það sleppur  ekki rétt.

 

Hádegi og við Hjörtur hittumst á fyrirfram ákveðnum stað eins og ákveðið var til að snæða, en hvar eru félagar vorir, Hilmar og Biggi ?? Nei sjást ekki og símasamband lélegt við þá. Svo við snæðum einir. Dagurinn líður hratt og klukkan er orðin fimm áður en maður veit af, það er haldið að bílnum og sem betur fer það er stórt farangursrými því félagar mínir hafa fundið þrjár skrúfur sem vonandi passa !! Næsti dagur er eins og sá fyrri mætt snemma í morgunmat og snemma á sýninguna þrátt fyrir að það sé sunnudagur. Nú eru menn í mínum hóp meira afslappaðri og ég fæ að fljóta með Hirti við skoðanir á ýmsu dóti. Við hittum Bigga sem sagði bara T-150, T-150 sem er týpuheiti Triumph Trident. En Biggi er að raða einu svoleiðis saman í rólegheitum eftir að vinur hans plataði útúr honum einn T150 sem Biggi var búin að eiga í tugi ára, skilst að þessi "platari" sé kallaður Bruni og búi á norðureyjunni, jú Biggi hafði einnig fundið bensíntank fyrir Norton Roadster. Ekki löngu fyrir lok sýningar hittum við Torfa sem var eitt sólskinsbros, með fimm poka í hvorri hönd sem og bakpoka. Með honum í för voru nokkrir Dvergar sem sögðu ekki mikið voru svona hálf þreytulegir enda klifjaðir breskum varningi. Þeir voru spurðir um innkaup ?? Torfi á þetta sögðu þeir í einum kór !! Heim var haldið á hótel að skoða innkaup dagsins sem og fyrri dags kaup og nú var veisla, en jú ekki má gleyma að báða dagana mætti Hilmar/Tæmerinn við inngang sýningarinnar nokkru eftir að sýningu lauk, kannski ekki skrýtið því Breskari gerast menn varla og þó hann tali nær enga ensku þá stóð það ekki í karli að versla og versla og versla í Breskt er bara langbest !! Að lokinni skoðun á varning (nema ég keypti ekki neitt !!) þá var snæddur kvöldverður.

 

Mánudagur er runninn upp og nú skal ferð áfram haldið og nú á að hitta góðan vin Hjartar sem heitir ef ég fer rétt með Ron Hossel og er snillingu í nær öllu sem viðkemur mótorhjólum og þá aðallega Triumph, sama hvort um er að ræða mótorbreytingar eða viðgerðir, var snillingur í að mála bensíntanka (reyndar hættur því). Ron og eiginkona hans taka á móti okkur eins og þau hafi þekkt okkur í fjölda ára, en ég hafði reyndar heimsótt Ron áður ásamt Hirti. Þarna í skúrnum hjá Ron voru nokkur hjól mislangt komin í breytingum og þá aðallega mótorbreytingar. En hann nær vel yfir 100 hestum útúr tveggja strokka Triumph mótor, já mótor með undirlyftustöngum framleiddum einhvern tíma á síðustu öld !!!, geri aðrir betur. Kostar reyndar dulítið. Þarna eyddum við drjúgum tíma í spjall og tíminn leið hratt.

 

 

 

Næst var (vona að ég sé með þetta í réttri röð !!!) haldið í BSA umboð (Betra Seint en Aldrei) þar sem Hilmari vantaði þrjár skrúfur. Þaðan var haldið í fyrrum Mekka vara og aukahluta í Triumph Trident eða til Norman Hyde, en Norman var mesti hugsuður/hönnuðurinn vegna mótora hjá Triumph, karlinn keppti einnig á hjólum og þá aðallega á mílunni. Þarna kom uppá yfirborðið mjög langur listi frá Bigga og sá sem afgreiddi sá fljótt að Norman Hyde myndi fara ásamt fjölskyldu sinni í langt ferðalag á sólarströnd í boði Bigga. Nú var mér farið að leiðast og tuðaði við skipstjórann hvort ekki ætti ekki að skoða eitthvað annað en Triumph og BSA. Jú jú Óli minn bara rólegur, ég á líka alvöru breta !! eins og þú og nú skal haldið í "mekka" Norton, sem er eins og allir vita besta Breska mótorhjólið !!!! Eftir að hafa troðið varningi Bigga í skottið á Mondeo sem virtist hafa verðið nokkuð stórt í upphafi en ekki lengur, þá var haldið sem leið lá til Andover Norton, já loksins loksins eitthvað af viti, nei bara að bulla. Þetta er nokkuð stórt umboð fyrir Norton og aðeins var verslað þarna, já ég meira segja keypti mér húfu merkta Norton og Hilmar líka=Nortonbræðurnir. Nú var Mondeoinn orðin nokkuð rasssíður og farið á síga á seinni hltua þessa dags.

 

Tveir bretasnillingar á tali,

En veislunni var nú ekki lokið því við ætluðum að gista hjá góðum vini mínum honum Derek Worley. Hann er mótorhjólamaður með stórum Emmi. Á nokkur fræg hjól t.d. P11 Norton og allt eins og nýtt hjá honum. Hann er ekkert að geyma hjólin í einhverjum rökum skúrum eins og algengt er í Bestalandi nei hann er með þau flest í sólstofunni hjá sér. Kvöldið leið hratt eftir góðan kvöldverð á Ítölskum stað. Við vöknuðum snemma að vanda og okkar beið þessi líka glæsilegi morgunverður í boði Derek, höfðingi heim að sækja og góður vinur. Ein heimsókn eftir og það var í Ace Cafe en Biggi hafði ekki komið þar áður, rétt litið við því tíminn leið hratt og ekki ætluðum við að missa af flugi fyrir t.d. einn bensínbarka eða þannig sko. Mondeo skilað óskemmdum nema þá kannski afturfjöðrun. Þessu ferðalagi lokið í félagsskap frábærra félaga og áður en ég loka þessu þá verð ég að koma einu að: Hjörtur vinur minn ók allan tíman eins og honum er einum lagið og hafi hann þökk fyrir, en grunar svona okkar á milli hafi hann talið að eldri borgarar væru betri farþegar en ökumenn og já svo er ekið vitlausu megin, eða réttu megin !! En eins og flestir vita þá voru Bresk mótorhjól eyðilögð árið 1975 því þá ákvað kaninn að öll mótorhjól yrðu að vera með skiptinguna vinstra megin, en bretar höfðu haft þetta réttu megin fram að því þ.e.a.s. hægra megin, en svona er þetta bara, kaninn vissi bara ekki muninn á hægri og vinstri !!!

 

Þvílíkir meistarar.

P.s. Góður maður sagði mér að Torfi og Dvergarnir sjö hefðu farið heim degi á undan Breskt er Best og ástæða þess hafi verið að ferðafélagar hans hefðu verið farnir að tala um að kaupa sér Bresk mótorhjól, félagi minn hefur strax séð að það gengi ekki= engin að aðstoða við varahluta innflutning !! Svipað gerðist fyrir rúmu ári því þá munaði engu að formaður hjólaklúbbs og Súkku aðdáandi númer eitt hefði keypt sér breskt mótorhjól.

 

Óli Bruni


14.05.2015 21:58

Landsmótsfréttir

Nú styttist í landsmót bifhjólafólks 2015, sem haldið verður hér í eyjum um goslokin (fyrstu helgina í júlí). Það verður farin aukaferð seinnipartinn á fimmtudeginum frá Landeyjahöfn, og svo frá eyjum á sunnudeginum. Það er því miður ekki komin endanleg tímasetning á ferðirnar en það er hægt að panta í þær ef hringt er í afgreiðslu Herjólfs (481-2800). Svo er að sjálfsögðu hægt að panta í áætlunarferðirnar ef fólki lýst betur á það. Við fáum endanlega á tímana á aukaferðunum fljótlega og verður það auglýst eins fljótt og hægt er.

Við vonumst eftir að sjá sem flesta á landsmóti í eyjum. Við vestmannaeyjingar lofum góðri stemmingu og góðu veðri.


Kási snillingur eyddi páskunum + nokkrum kvöldum í smíðar á fjórum landsmótsgrillum. Kási kláraði verkið endanlega í dag og kom sáttur og sagði "nú má landsmótið koma".


Endilega deilið þessu á feisinu svo að flestir sjái.


12.05.2015 19:16

Mr. Burn

Það er löngu kominn tími á einn brunapistil,, ágætishugleiðingar hjá karlinum, og skemmtileg skrif eins og oft áður.       


   Umræða um landráð !!!!

 

Á umræða um landráð heima á heimasíðu mótorhjólafélags ?? Nei eflaust ekki !! En það er auðvitað nálægt landráði að segja að mótorhjól framleidd í hrísgrjónalandi eða þar sem Broken Motor Works (BMW) er framleiddur sem og fræg vatnsdæla sem ber nafnið Mótor Gussi séu betri en Bresk (breskt er best) mótorhjól. En svona fullyrðingu las ég fyrir nokkru í ónefndu mótorhjólablaði sem okkar á milli er gefið út í Englandi=Landráð !!

 

Saga breskra mótorhjóla er auðvitað með þeim elstu og því ætti framleiðsla þeirra og gæði  vera langt um fremri en framangreindra, auðvitað vitum við öll að á tímabili voru bretarnir lang lang bestir, það þarf ekki skoða söguna lengi til að sjá það sjáum t.d. Vincent, Brough Superior sem t.d. Lawrence of Arabia taldi besta hjólið í heiminum, síðan má nefna Norton sem á tímabili átti TT keppnina á Isle of Man með Manx-inn, síðan tuga hraðameta sem Triumph átti, svona má mjög lengi telja og allt of langt mál að skrifa um og það þarf auð- vitað ekkert að sannfæra alvöru bretaaðdáendur um Breskt er best.

 

En síðan breska heimsveldið var uppá sitt besta hefur mikið vatn runnið til sjávar og í nútíma umhverfi og umferð hvort eru betri bresk mótorhjól framleidd fyrir ca. árið 1975, eða japönsk, þýsk og sum hjól frá ítalíu ??? Þarna verður margt að skoða, t.d. viðhald, hvernig er að koma hjólinu í gang, geta bæði kyninn notað græjuna o.s.frv. Stórt er spurt og þetta verður kannski ósanngjarn samanburður, því framleiðsluaðferðir voru svo ólíkar og byggðar á mjög ólíkum ja hefðum. Tökum t.d. byrjun japana í stærri hjólum þ.e.a.s. 450cc og stærri. Þeirra fyrstu hjól voru í raun eftirlíkingar frá Englandi, nema japanir voru með svo til nýjar verksmiðjur og ekkert um verkföll annan hvorn dag!! Síðan voru mótorar settir saman þversum en bretinn setti sýna mótora saman langsöm=meiri hætta á olíuleka.

 

Japanir voru t.d. ekki lengi að sjá að það væri miklu betra að vera með rafstart (konutakka) heldur en að þurfa að snúa græjunni í gang, reyndar komu mörg hjól frá japan með rafstarti og sveif. Síðan þótti japönum leiðinlegt að vera með bensínlykt af fingrum sýnum svo þeir voru með blöndunga sem ekki þurfti að dæla inná handvirkt, svo fannst þeim líka fljótlega betra að vera með diskabremsur heldur en borðabremsur allavega að framan, yfirliggjandi knastása ofl. Þjóðverjinn var líka á undan bretum með ýmsa tækninýungar á þessum síðustu árum breska heimsveldisins, ég ætla ekkert sérstaklega að tala um spagetti framleiðsluna !!

 

Hvurslags myndi unglingurinn spyrja er bara verið að "dissa" bretann, ertu búin að skokka á staur eða hvað ??!! Nei BRETAR voru búnir að gera þetta alltsaman, en eigendur t.d. BSA, Norton, Ariel og Triumph fyrirtækjana hugsuðu bara um eitt: peninga og því ættu þeir að breyta einhverju sem hafði gengið í tugi tugi ára. Þó að ungir hönnuðir kæmu með góðar hugmyndir og þær jafnvel reyndar þá endaði þetta alltaf á spurningu eiganda hvað kostar þetta. Svo var auðvitað ekkert mikið hugsað um breska verkalíðinn sem hafði fyrr á árum verið stoltur af sinni framleiðslu og sögu, en það breytist eins og margt annað í sögunni um breska mótorhjólaframleiðslu. Þessar bresku verksmiðjur fóru á hausinn hver á eftir annarri, t.d. fór BSA undir Triumph og síðan Norton og svo bara dó þetta alltsaman= Japönsk heimsyfirráð.

 

 

 

En bökkum aðeins og förum svona ca. til ársins 1968-69, japanir koma með fjögurra strokka (já já Honda) græju, með rafstarti og yfirliggjandi knastás og diskabremsu að framan, bretar svara með þriggja strokka græju (BSA og Triumph), startsveif og borðabremsum að framan og aftan. En hvor hjólin voru betri á kappakstursbrautum heimsins ?? Jú auðvitað bretinn með Triumph Trident og BSA Rocket Three, það tók japani nokkuð mörg ár að ná bretunum og það snerist aðallega um smíði grinda. Það er ekki fyrr en árið 1975 að Triumph Trident T160 og Norton Commando MKIII komu með rafstarti, reyndar hægt að setja spurningamerki við virkni þessa svokallaða rafstarts á Norton. Þessi tvo hjól komu einnig með diska bremsum bæði framan og aftan sem og að skiptipedali var færður á vitlausa hlið þ.e. vinstra megin, sko útaf því að í USA gátu þeir ekki lært muninn á hægri og vinstri hlið. En á þessum tíma var BSA dáið.

 

Það spyrja margir hvað ekkert rætt um Móto Gussa, Dúkka eða Bimma, ja allavega þrír !!, jú aðeins skal rita um þá, en hér á landi var mjög lítið um þessi hjól og ræðandi um gæði og akturseiginleika ofl., þá má kannski segja að Bimminn átti fullt af gæðum með tveggja strokka voffavélina en kannski ekki mikið meira (jú aðeins), svipað með Gussann, en Dúkkinn átti útlitið og síðan frábæra frammistöðu á kappakstursbrautum, en gæði ja þeirra rafmagns sérfræðingar fengu 10 í rafmagnsfræði frá skóla LUCAS sem fann upp myrkrið, en svona að gamni skoðið myndir af GT dúkka eða SS dúkka frá árunum eftir 1970 og þið sjáið varla fallegri hjól.

 

En hver er niðurstaðan ?? Allt smekkur manna og jafnvel trúarbrögð, ekki rétt ??!! Hver vill eiga hjól sem lekur olíu og þarf að snúa í gang ?? Hver vill eiga hjól sem er karekterlaust og er bara. Það getur engin í raun sagt að ein tegund sé betri en önnur. Allavega verður sá sem fullyrðir slíkt að getað stutt slíka fullyrðingu með eigin reynslu= að hafa átt og notað viðkomandi tegund. Svona í niðurlagi þá vona ég að einhvern daginn muni öðlingur einn sem heitir Hjörtur Jónasson endurbirta (var í Fréttablaðinu fyrir nokkrum árum minnir mig) ferðalag sitt á Triumph Trident T-160 árg. 1975, þegar hann ók um norðurlöndin sem og hluta evrópu, hann ók um km 10000 og án þess að gera nokkurn tíma við græjuna, síðan bætti hann við ca. 5000 km á fósturjörðinni sama ár, síðan má einnig nefna það að Triumph er að gera virkilega góða hluti í dag og hjól þeirra seljast eins og heitar lummur, allavega annars staðar en hér. Norton er líka endurfæddur og hægt að kaupa slíka græju ef menn eiga slatta af peningum. Læt nokkrar myndir fylgja og tek fram að ég er alveg hlutlaus !!!

 

Óli bruni

 

Á bæði gömul bresk sem og janpanskt












Flettingar í dag: 390
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 772
Gestir í gær: 53
Samtals flettingar: 1467041
Samtals gestir: 88386
Tölur uppfærðar: 12.12.2024 04:47:08