M.C. Drullusokkar Stofnað 04.05.06.

Hvetjum félagsmenn til að senda inn myndir af sér og hjólunum sínum í félagaskrána.
Einnig ef þið eruð með skemmtilegar hjólamyndir, fréttir eða aðrar tilkynningar sem eiga heima hér.
[email protected]

03.05.2015 15:10

Ferðasaga 1976 part 2


Hér er Partur 2 í ferðasögu Steina Tótu.

Dagur tvö byrjaði með pirringi út í yfirvald heimsins. Okkur hafði sennilega aldrei langað eins mikið í kók, kaffi eða bara sjoppu almennt, en hún var einmitt bara 500m. eða svo í bannaða átt.
 Meðan verið var að græja af stað tok svo spenningurinn yfir, því framundan var ævintýri í rykinu, frægur Fjallvegur no.1, Holtavörðuheiðin.
  Ferðin yfir heiðina og um Húnaþing vestra var að flestu leiti tíðinda lítil utan sprungið dekk hjá mér í Norðurárdalnum og aftur nærri Staðarskála. Þá kom í ljós að við vorum ekki alveg útbúnir í dekkjaviðgerðir á víðavangi. Það gat verið bísna seinlegt að leita um sveitir eftir verkfærum og lofti.



Þarna er puntering no 2 við Staðarskála þann gamla og þá er bara að fara að rífa afturgjörðina undan og laga. Þær áttu nú eftir að verða mun fleiri dekjasprengingarnar í ferðini.

 Fjárhagslegt skipulag ferðarinnar hafði eins og annað skipulag, gleymst.
  Þetta kostaði Hvammstanga skrepp, símaklefa og langt spjall við mömmur ferðalanga þar til síma ávísun fékkst fyrir erfiðið. Komið var undir kvöld þegar við loks höfðum aftur fast undir hjólum á brúnni yfir Blöndu. Svo fegin var maður að losna af mölinni nokkra metra að keyrt var nokkrar ferðir fram og til baka á brúnni.



Allt orðið klárt fyrir ferðina til Blönduós. Og hárið á okkur orðið eins og hampur viðkomu eftir stanslausan rikmokstur vegarins.
 
 Blönduós Löggan kom og spjallaði við okkur, aðallega að spyrja frétta af þjóðveginum, hvernig gengi á mölinni og svoleiðis. Alveg fínir gæjar, annað en kollegar þeirra hinu megin við heiðina.
 Þarna tjölduðum við í göngufæri við sjoppu og kamar og höfðum það eins og kóngar.
                                                  
                                           Renolds. Keðjur og kílreimar frá Fálkanum!
 Þessi auglýsing sem glumdi oft á Gufunni átti eftir að koma oft upp í hugann áður en dagur þrjú kláraðist. Við vorum sem sagt enn á norðurleið, keyrðum greitt að okkur fannst, en það gekk rólega að komast norður á við vegna lítils hraða í viðgerðastoppum. Við vorum þó komnir niður í ca. klukkutíma á sprungið dekk. Demparar þess tíma voru heldur ósáttir við veginn, sérstaklega hjá þeim sem var með tjaldið á hverjum tíma, og sprakk helst á því hjóli. Hjólin voru líka byrjuð að létta sig sjálf. Dót sem þeim fannst óþarft, vildi losna og yfirgefa samkvæmið.
 Þá bar orðið á hönnunar vandamálum í bögglabera smíðinni. Þurfti þess vegna að vingast við vélsmiðjumenn á leiðinni.
 Seinnipart dags vorum við í Skagafirðinum, að mig minnir í nágrenni við Silfrastaðarétt við mynni Norðurárdals Nyrðri, þegar heyrist bang og ekkert meira keyr í Hondunni minni.



Þarna var allt steinstopp og keðjan slitin en eftir að skoða og sjá okkur til mikillar skelfingar að keðjan sjálf var ekki stóra vandamálið eins og átti eftir að koma í ljós.

 Nýr Renolds keðjulás, verslaður í póstkröfu frá Fálkanum fyrir túrinn hafði slitnað eða opnast , keðjan tvöfaldaðist á fremra tannhjólinu og braut stórt gat á gírkassann.  Nú var Tótumann í síðum hægðum. Langt í allar áttir og naddan stopp.  Við vorum að velta okkur uppúr þessu dágóða stund þegar aðvífandi kemur bíll og maður spyr hvort eitthvað sé að. Ég hélt það nú. Allt væri í klessu og lífið á leið í hundana.  Blessaður vertu maður. Ég er hérna með fínan spotta sem þú getur fengið og félagi þinn bara dregur þig hvert sem þið ætlið!
 Þarna birti heldur betur til í tilverunni og við sáum að þetta var alveg gerandi. Okkur leist ekkert á að fara til baka, það var í vitlausa átt, þó styttra væri. Við vorum orðnir svo brattir, með þennan fína spotta að ákveðið var að fara Öxnadalsheiðina á honum.



Þarna var byrjað að græja dráttartogið fyrir dráttinn til Akureyrar og framundan Öxnadalsheiðin með sinni grófu möl og misvel hefluðum þjóðvegi.Það má vel sjá hvar keðjan lafir þarna niður í götu

 Þetta gekk bara alveg ótrúlega vel þó Hondan Tryggva þyrfti stundum að hafa helvítis helling fyrir lífinu í bröttustu brekkunum. Heiðin var nefnilega vel kröpp á köflum í denninu og þröngt milli hryggja.  Þessi reynsla að hanga í spotta aftan í öðru hjóli hefur síðan oft komið sér vel. Ég hef marg oft dregið menn á hjólum gegnum árin, við klikkaðar aðstæður stundum, og þá er gott að vita hvernig það er að vera á hinum endanum.



Hér er Hondan hans Tryggva kár í hjóladráttinn langa.

 Það tók allt kvöldið að komast inn á Akureyri en þegar við loksins komum inn á Torg, rétt undir miðnætti fór ævintýrið á fulla gjöf. Maður spurði hvort menn vissu hvar Heiddi væri.
 Heidda hafði ég kynnst á vertíðinni árinu áður í Eyjum, þar sem hann var á Gullborginni, og við smullum saman, og áfram um árin.  Auðvitað vissu menn hvar Heiddi væri og einhver spændi niður á Eyri og náði í hann. 

Framhald síðar.


Flettingar í dag: 1019
Gestir í dag: 78
Flettingar í gær: 851
Gestir í gær: 89
Samtals flettingar: 831862
Samtals gestir: 58333
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 17:07:16