M.C. Drullusokkar Stofnað 04.05.06.

Hvetjum félagsmenn til að senda inn myndir af sér og hjólunum sínum í félagaskrána.
Einnig ef þið eruð með skemmtilegar hjólamyndir, fréttir eða aðrar tilkynningar sem eiga heima hér.
[email protected]

Færslur: 2012 Ágúst

20.08.2012 13:13

Það gat verið bras á frændunum.




Hér erum við frændurnir staddir á Akureyri árið er 1976 ég 19 ára hann tæplega 17 ára, þarna búnir að rífa vélina úr 750 Honduni hans Steina Tótu. Aðstaðan við þetta var ekki alveg eins og best var á kosið undir berum himni á grófu malarplani en allt hafðist þetta hjá guttunum sem taldir voru til óþekktarhlutans af Hornaflokknum. En sem betur fer þá var Steini  mun óþekkari en ég og gott ef hann er það ekki bara enn.



Hér er svo vélin komin undan og næst var að rífa hana niður enda lófa stórt gat inn í gírkassann eftir drifkeðjuna. Bragi Fimboga á Akureyri aðstoðaði okkur svo við rifin og samsettninguna á vélini og var ferðini svo haldið áfram hringinn. Þarna má sjá líka 500 Honduna hans Einars Arnarsonar en þessar myndir eru frá honum komnar.

19.08.2012 10:41

Samför Drullusokka og Gaflara

Samför Drullusokka og Gaflara 2012

Nú næstkomandi laugardag 25 ágúst er fyrirhuguð dagsferð okkar og vinaklúbbsins okkar Gaflara. Farin var svona ferð í fyrra og þótti hún takast þrælvel í alla staði svo nú er það ætlun okkar að endurtaka leikinn frá í fyrra. Við ætlum að mæta í Herjólf á laugardagsmorguninn kl 08.00. Hvert farið verður er enn óljóst en haft verður samráð við Gaflara um það og eins hvar við eigum að hitta þá. En við komum með nánara ferðaplan þegar nær dregur, Í fyrra skiptist þetta nokkuð jafnt niður á klúbbana ef rétt er munað þá voru 12 Gaflarar og 12 Drullusokkar í þeirri ferð en farið var um uppsveitir Árnessýslu í flottu veðri. En aftur að ferðini í ár þá er það meiningin að taka svo Herjólf aftur heim á laugardagskvöld síðustu ferð.
Nú fer að styttast í sumrinu og upplagt að hreifa fákinn aðeins fyrir haustið og hafa góða skapið með að sjálfsögðu.


Stjórninn











Látum hér fylgja með nokkrar myndir frá síðustu samför okkar 2011.

18.08.2012 21:13

Kíkt í skúrinn hjá Óla safnstjóra.....

Óli bauð okkur í smá skúraspjall, alltaf gaman af því.

Þarna er CBX-inn hans í samanröðun eftir sprautun, hann var steingrár, en hann kemur ljómandi vel út í þessum lit.

Skúrinn er ekki stór en hann er fullur af gulli.

Hér er cafe racer í bígerð, það hafa þónokkrir Vestmannaeyjingar tekið mótorhjólaprófið á þetta hjól, því að Halldór Sveins átti þetta hjól um tíma og var það notað í prófið. Þetta er flott verkefni.

18.08.2012 04:32

Meira af hjólamílunni

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá hjólaspyrnunni á hjóladögum á Akureyri. Myndirnar eru teknar af www.ba.is











Myndir teknar af www.ba.is

16.08.2012 13:24

Norton 750 til sölu.




Til sölu er Norton Comando 750 cc árgerð 1971, Þetta hjól er eina sinnar tegundar sem til er í landinu, það er 750 cc. Hjólið er í toppstandi og með því fylgir ýmsir varahlutir þar á meðal framgjörð með tvöfaldri bremsu. Tilboð óskast en upplýsingar veitir Gylfi Úraníusson í síma 897-1143 eða 481-2836



Þetta er toppgræja í alla staði.

16.08.2012 12:50

Gömlu Honda-hjóla kóngarnir

Við kíktum í skúrinn hjá Stebba Finnboga á hjóladögum. Það er ýmislegt sem leynist þar og gaman að skoða og hitta karlinn, en hann á mörg virkilega flott og merkileg hjól.

Þarna er greinilega ýmislegt brallað, og oftar en ekki tengist það Honda CBX.

Þarna er Óli safnstjóri að brasa í sínum CBX, raða honum saman eftir sprautun og fíneseringu.

Það er ýmislegt gullið sem leynist hjá Stebba.

CB450

Hér leynist 900 Kawinn sem að Lilli átti um árið, 1 af 5 Z1-900 1973 sem að komu nýjir til landsins.

16.08.2012 11:00

Nokkrar af 750 Hondunum árið 1976








Hér eru þrjár myndir frá Einari Arnarsyni sem teknar eru á Akureyri árið 1976. Þetta er sennilegast í eina skiptið sem allar fjögura cylindra Hondur landsins voru myndaðar saman

14.08.2012 20:28

Minning.



Sárt er að kveðja góðan vin sem fellur frá í blóma lífssins fyrirvaralaust. Sveinn Mattíasson eða Svenni Matt eins og hann var alltaf kallaður var góður drengur og mikill vinur vina sinna. það eru mikil forréttindi að fá að tilheyra þeim hóp. Það var mikið brallað saman bæði sem Drullusokkar og eins sem vinir enda drengurinn uppátækjasamur með eindæmum. Svenni var einstklega glaður, geðgóður og mikill húmoristi. Árið 2006 stofnuðum við Svenni ásamt þeim Vigga, Sigga Óla, Jenna rauða og Dolla mótorhjólaklúbbinn Drullusokkarnir. Það kom fljótlega í ljós að þetta var löngu orðið tímabært þar sem félagsmenn telja um 200 manns í dag. Svenni bar félagsnúmerið #2 og var stoltur af. Nú nýlega fékk hann gullmerki fyrir að vera einn af stofnendum félagsins. Svenni var harðduglegur drengur enda ávallt í topp plássum og lengst af á Þórunni Sveinsdóttur VE 401 sem vélstjóri. Það var mikil gæfa í lífi Svenna þegar hann kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni Hörpu Gísladóttur. Saman ferðuðust þau mikið saman bæði innanlands og utan.
Svenna verður sárt saknað og þá sértstaklega hans ynnilega faðmlags sem ég fékk ávalt þegar við hittumst. Með því fylgdi smá gretta á nefið og hans séstaka og öfluga JÆJA sem einginn getur haft eftir. Foreldrum hans, Hörpu og börnum þeirra sendum við okkar ynnilegustu samúðarkveðjur
Tryggvi og Erla



Við viljum nota tækifærið og þakka félagsmönnum fyrir að koma með hjól sín og hjálpa þannig til með að sína föllnum félaga okkar virðingu.
Með vinsemd og virðingu
Stjórn Drullusokka.

12.08.2012 19:12

Vegna útfarar Sveins Matthíassonar.





Kæru félagar og vinir á þriðjudaginn næstkomandi kl 14:00 verður útför Svenna Matt # 2 gerð frá Landakirkju. Það er einlæg ósk okkar að sem flestir sjái sér fært að mæta með hjól sín upp að kirkju á þriðjudags morguninn á milli kl 11:00 og 12:00. Ætlun okkar er að mynda heiðursvörð frá Skólavegi og upp að kirkjugarðshliði. Með þessu viljum við sýna hinum látna virðingu okkar.
Vonum að sem flestir hjólamenn hér í Vestmannaeyjum sjái sér fært að mæta.

Stjórn Drullusokka.

11.08.2012 09:44

Ein gömul mótorhjólamynd úr Eyjum




Hér er ein gömul mynd af Gylfa Gunnarssyni, Gunnars prentara myndin er tekin fyrir utan Hótelbúðina þar sem nú er Sýslumanshúsið. Hjólið sem Gylfi átti þarna er af tegundini Triumph Speed Tvinn 500 cc og er af árgerð 1946. Þetta hjól er enn til hér í Eyjum en það á í dag Gylfi Úraníusson og er hjólið tibúið til samsettningar eftir uppgerð. Þegar ég var gutti átti Triumphinn Finnur í Sandpríði. Myndin kemur frá Mugg Pálssyni.

10.08.2012 00:20

Úr Akureyrarferð fyrir 10 árum síðan


Hér eru nokkrar myndir úr frændaferð til Akureyrar árið 2002.


 
Frá Vinstri talið Darri, Jón Steinar, Svenni og Tryggvi



Komið var við hjá strákunum á Ystafelli í Kinnunum og bílarnir skoðaðir hjá þeim



Þarna er Siggi Árni með þeim Svenna, Darra og Jóni Steinari við forláta Ford Vörubíl frá árinu 1942.



Og Traderinn klikkar seint.



Komið var líka við hjá Siglfirðingnum Ómari Sveins áður en hann flutti. En Svenni var bróðursonur Ómars.



Og hér nýkomnir úr mjólkurbúðini á Akureyri og allt í gúddí.


09.08.2012 11:24

Fimmtudagshittingur í kvöld


Við viljum minna á fimmtudagsfundinn í kvöld kl. 20:00 í Gullborgarkrónni.
Vonum að við fáum sem flesta í spjall.

 Stjórnin....



 

06.08.2012 10:47

Fallinn félagi.






Þær sorglegu fréttir bárust okkur aðfararnótt sunnudags að góður vinur og félagi Sveinn Matthíasson hafi orðið bráðkvaddur fyrr um kvöldið. Svenni var drengur góður og einn okkar allra bestu vina og missirinn mikill fyrir okkur sem eftir stöndum og þá sérstaklega hana Hörpu okkar sem nú sér á eftir manni sínum. Svenni Matt var einn af stofnfélögum  Drullusokka og bar félagsnúmerið # 2 og var stoltur af. Við sendum öllum aðstandendum og vinum Sveins Matthíassonar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Tryggvi og Erla.

Flettingar í dag: 528
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 884
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 1408582
Samtals gestir: 86217
Tölur uppfærðar: 22.11.2024 01:54:17