M.C. Drullusokkar Stofnað 04.05.06.

Hvetjum félagsmenn til að senda inn myndir af sér og hjólunum sínum í félagaskrána.
Einnig ef þið eruð með skemmtilegar hjólamyndir, fréttir eða aðrar tilkynningar sem eiga heima hér.
[email protected]

03.05.2015 15:06

Ferðasagan mín frá 1976.



Partur no 5.

Það sljákkaði í okkur við þessar upplýsingar. Allavega um stund en samt náði ég að spyrja karlinn hvort þessar heimsku reglur um mótorhjól eftir kl. 11 væru frá honum komnar?
 Hann var við það að froðufella þegar hann sagði að það væru aðrir eins villimenn og við sem voru þenjandi um fjörðinn um stillar nætur sem hefðu komið því á. Bæjarstjórn hafi tekið á málinu og það væri hans að fylgja því eftir og við skildum bara hlíta því. Hjólamenn sem við hittum seinna á ballinu viðurkenndu að þetta væri málið. Bannað eftir 11.  Við báðum fógeta að slaka á, við yrðum til fyrirmyndar hér eftir. Hann kvaddi með þekktum frasa.
Það verður sko fylgst með ykkur!



 Skömmu síðar vorum við komnir á rúntinn með infæddar farastýrur aftan á, ball að bresta á og allt  undan gengið löngu gleymt.  Það var til siðs að prjóna fyrir utan ball í okkar uppeldi og við Egilsbúð var ekki gerð að nein undantekning frá því. Reyndar frábær staður þar sem brekka var upp með ballinu og maður náði að setja í annann í loftinu og klára götuna.
 Í fjórðu ferð upp með ballinu var klukkan að nálgast hálf tólf og þar sem hjólið kom niður efst í brekkunni, stóðu tveir menn með útréttar hendur. Annar í búning, hinn var fógetinn, vel dimmur. Lærði þarna að rétt viðbrögð í stöðunni voru að gíra niður og botna, gerði það næst, en aðstæður þarna buðu ekki uppá það. Gatan endaði þarna í hægri beygju og löggustöðin var akkúrat þar! Hvernig gátum við vitað það? Hnakkskrautin sögðu ekki orð um það frekar en annað meðan á rúntinum stóð. Við vorum sem sagt handteknir. Sagt að leggja hjólunum og vorum leiddir með þéttu taki um upphandlegg í varðstofu. Fógeti hélt langa ræðu um einbeittan brotavilja, áminningar og svikin loforð um hegðun. Forhertir utanbæjarmenn hefðu ekkert í hans umdæmi að gera. Þess vegna hefði hann í góðmennsku kasti ákveðið að vísa okkur úr bænum frekar en að fangelsa okkur. Búningurinn hélt sig til hlés meðan þetta gekk yfir. Held reyndar að þeir hafi viljað komast heim. Komið að miðnætti, vaktin búin og engann mannskap að hafa til vöktunar á okkur. Allavega, eftir blástur fógeta var komið að erfiða partinum. Spurt var um ökuskírteini.



Insiglið komið úr Cb 50 hjá gelluni. á Norðfirði og hún alsæl með kraftinn.

 Einar sýndi sitt í snatri, sveittur eftir lesturinn en agalega fegin að eiga svona Teini og ég átti leik.
 Sko: Ég var ekki með það á mér því ég hafði ekki séð Teinið síðan við vorum á Akureyri. Við hefðum ekki leitað fullkomlega í dótinu svo það væri smá möguleiki á að það væri einhversstaðar í tjaldinu en ég var ekki bjartsýnn. Reyndar hafi ég beðið Lögregluna á Akureyri að svipast um eftir veskinu og senda til Eyja ef það kæmi fram. Væri ekki ráð að þeir hefðu samband við kollega sína þar meðan við færum með búningnum út að Vita og leituðum af okkur allan grun í tjaldinu?
 Þessi tillaga fékk svo sem engin húrrahróp, en þeir fóru þó afsíðis og ræddu saman. Úr varð að fógeti settist víð símann meðan búningurinn elti okkur í tjaldið og var frekar stífur meðan við gerðum  dauðaleit að Teininu góða. Aldrei datt neinum í hug að maður á svona ofurhjóli væri ekki með aldur. Við vorum komnir með draslið okkar út um allt tún með hann yfir okkur þegar flaut heyrðist frá Löggubílnum. Fógeti var í talstöðinni og við heyrðum hvert orð í kvöldkyrrðinni.


Einar Arnars alsæll á monkeybike  sem hann átti

 Málið var skráð hjá  Lögreglunni á Akureyri. Maður með þessu nafni hafði komið þar og spurt eftir veskinu sínu.
 Leyfum þeim að sofa þarna og þú fylgir þeim kl.9 í fyrramálið út að bæjarmörkum. Losum okkur við þessa óværu.
 Búningurinn kom úr talstöðinni allt annar maður. Var hinn rólegasti og fór að spjalla um ferðalög og hvernig væri að mæta bílum þegar hjólförin væru bæði upptekin af þeim sem maður mætti. Ég sagði honum að þegar sá sem kæmi á móti sýndi enga tilburði til að hægja á, væri stundum gott að fara í vinstra farið og halda gjöf. Þá bognuðu þeir yfirleitt. Þetta fannst honum sniðugt. En því miður yrði hann að leiða okkur út úr bænum í fyrramálið. Skipanir að ofan sagði hann.



Hér erum við frændur að undirbúa ferðina miklu.

 Við báðum hann blessaðan að hafa ekki áhyggjur af því. Við ætluðum aldrei að vera hvort sem var, skruppum bara að líta á þennan fræga og fallega fjörð. Hann kvaddi með handabandi og við létum okkur hafa það að labba á ball, fleiri hundruð metra.
 Stuðið rétt að byrja og við í fínum málum á vegum yfirvalda fram á morgun. Innfæddir og fleiri á ballinu voru hissa að sjá okkur eftir læti dagsins en voru samferða í fjöri fram á morgun.
 Búningurinn mætti á réttum tíma þar sem við vorum að binda á. Sem betur fer ekki með nein blásturs tæki. Við vorum ekkert farnir að sofa. Ekki setja í þriðja! Var aðal málið gegnum kaupstaðinn þennan morgun. Halda 50 og friðinn út að rimlahliði.
 
 framhald síðar.



Flettingar í dag: 528
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 884
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 1408582
Samtals gestir: 86217
Tölur uppfærðar: 22.11.2024 01:54:17