M.C. Drullusokkar Stofnað 04.05.06.

Hvetjum félagsmenn til að senda inn myndir af sér og hjólunum sínum í félagaskrána.
Einnig ef þið eruð með skemmtilegar hjólamyndir, fréttir eða aðrar tilkynningar sem eiga heima hér.
[email protected]

03.05.2015 15:07

Ferðasagan frá 1976


Hringferðin 1976. Partur 4.

 Austur

 Eftir þetta, með dekkin búin, dempara í drasli og vegina enn verri, sprakk að jafnaði tvisvar á dag. Það var eftirá fín reynsla, en með farangur allan aftan á, þurfti að sleppa uppréttur frá ýmsum útgáfum af sprungnu dekki. Hratt, hægt, beygjur, brekka, framan, aftan o.s.frv. Man ekki með strákana en hjá mér punkteraði (Akureyriskt sprungið dekk ) 15 sinnum að aftan og tvisvar að framan í þessari ferð.  Man sérstaklega eftir Mývatns öræfum þar sem ég endaði allur vinstra megin við hjólið, dragandi lappirnar, og hjólið stóð í ruðningnum hægra megin. Beyglað púst og alles.



Hér situr Einar á Honduni minni upp á möðrudalsöræfum sem voru jú skelfilegur vegur á þessum tíma.
 
 Í minningunni held ég að við höfum náð á Egilsstaði í einni atlögu. Kannski sprakk bara tvisvar þann daginn. Til er mynd af punkteringu á Möðrudalsöræfum frá Einari. Allavega, þar var frábært að koma og vera í góðu veðri.  Tjaldað og slakað.
 Í sól og hita liggur mönnum minna á. Upp kom hugmynd að kíkja á Norðfjörð.
Það væri smá krókur en Neskaupsstaður var hot á Gufunni þessa daga sem hin Höfuðborgin. Mótvægi við borg óttans hvar kapitalistar rændu múginn, sem blómstraði brosandi í vinnuparadísinni á Norðfirði. Ekki dró úr að hafa frétt af öflugum hjólamönnum, þarna hinu megin á stærstu eyju Vestmannaeyja.
  Þetta varð gó eftir stutt fundarhöld. Tveir á ferð rétt sleppur við að vera hópur.


 
  Þegar hlutir byrja að fara úrskeiðis, enda þeir gjarnan afsíðis.

Fjallvegurinn Fagridalur var í skýjum, en að koma í Hnúkaþey niður á firðina! Algerlega meitlað í minninguna. 20 stiga hiti og brosandi líf. Föstudagur og allt að gerast. Fréttum af balli í Eigilsbúð meðan við tönkuðum á Eskifirði og horfðum upp brattan að Oddskarði, löngu áður en einhverjum datt í hug bora gat í fjallið, hvað þá tvö svoleiðis.
 Í þessum pælingum bar að tvo misgengismenn. Annar á 750 H2, hinn á 400 S3. Sögðust vera Nobbarar og spurðu frétta. Við sögðum þeim hjólasögur að sunnan og fengum prepp fyrir balli og tjaldstæði við vitann hjá þeim. Eftir spjall buðust þeir til að gæda okkur yfir fjallið og kynna okkur fyrir menningu Nekaupsstaðar sem við þáðum, glaðir með hjálpsemi heimamanna.



Hér komnir inn til Egilstaða.

 Eftir tvær beygjur eða svo í hjallanum ofan Eskifjarðar hófst algerlega óvænt dauða race yfir skarðið. Keppt var í tveim flokkum, að 500cc og svo 750.
 Ekki var nokkur leið að sjá undanfarann í rykmekkinum sem fór ekki neitt í logninu, nema rétt þegar maður mætti honum eftir U beygjurnar sem nóg var af. Maður miðaði bara í mökkinn miðjan, hlustaði á H2, sniffaði 2T og vonaði það besta.
 Þetta gekk með helvítis látum upp skarðið og yfir, alveg þangað til það klikkaði á niðurleið hinu megin. Misreiknaði hljóðið og brattann og fór beint meðan slóðin fór í hina áttina.
 Það hallaði verulega undan þarna efst í hlíðunum og var alls ekki slétt undir hjólum. Um það bil sem ég ætlaði yfirgefa nödduna og láta hana eina um fjallið, birtist vegurinn aftur eftir síðasta U, þar sem ég lenti eins og fínn maður og var nú á undan.
 Þegar 750 keppendurnir stoppuðu við rimlahliðið á bæjarmörkunum, var ekki sagt eitt einasta orð meðan beðið var eftir seinna hollinu. Þegar þeir voru komnir og við svissuðum á, sagði H2. Þú hefur séð þetta þarna? Já já, var svarað og skellt í gír.
 Þetta var síðla dags og fegurð fjarðarins endalaus í blíðunni þar sem rúllað var í rólegheitum út fjörð, að bænum.
 Þarna um bil tóku örlagadísirnar yfir og fóru að leika sér með okkur drengina.
Þar sem komum að bænum, keyrum við fram á splunku nýtt og afgirt malbik á aðalgötunni. Hey! Spól og spæn, minnugir Glerárgötunnar og við í það, nema infæddir voru greinilega ekkert spenntir fyrir þessu, við skildum ekkert í því þá. Vorum rétt byrjaðir að gúmma, skelli hlæjandi, þegar karl skröggur kemur æpandi og patandi út í loftið. Við sláum af til að heyra hvað hann hafði að segja. Sem var í stuttu máli að hætta þessum skemmdarverkum á eigum bæjarinns í hvínandi hvelli eða við yrðum læstir inni og sektaðir í drep.




 Eftir nokkurra sekúndna fund, sem aldrei fór fram var ákveðið að lúffa til að halda frið við þennan klikkara. Okkur fannst dudinn nett fyndinn með allan þennan hávaða út af engu.
 Lagður hafði verið malarslóði meðfram þessum framkvæmdum á aðalgötu Nobbfjarðar. Þar stóð karlinn eins og hann ætti fjörðinn og við urðum að rúlla framhjá honum. Í ADHD kasti setti ég í annann og mokaði slóðanum yfir karlinn.
 Góð eða slæm ákvörðun? Maður tók ekki ákvarðanir 16 bráðum 17 ára. Maður gerði bara beint af augum!



 Fórum gegnum Kaupstaðinn og tjölduðum við vitann. Vorum rétt að koma okkur fyrir þegar Gunna Stína kemur á bling nýju CB 50 sem var kæfandi kraftlaust. Hún var hress og losnaði við innsiglið meðan við spjölluðum saman.
 Sjoppan á bakkanum beið. Þar var allt sem ferðalangar þurftu. Samskiftamiðstöð bæjarinns. Rétt lentir þar að troða í okkur, þegar karlinn kemur aftur, sá sami og hafði í hótunum fyrr um daginn.
 Núna óð verulega á honum, Tilkynnti fyrir hönd Norðfjarðar að bæjarsamþykkt no. Einhvern andskotann segði að akstur mótorhjóla væri bannaður í bæjarfélaginu eftir kl. 11.00
  Ég var í miðri pylsu, með allt í gangi, pjöllur á kantinum og spyr karlinn. Hvurn andskotann hefur þú með það að gera.
 Hann átti verulega bágt með sig meðan við föttuðum ekki VALDIÐ sem hann hafði. Hann blés upp, varð skrítinn í framan og sagði. Ég er sko Bæjarfógeti hér!
  Ái.

Framhald síðar.

Flettingar í dag: 1190
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 884
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 1409244
Samtals gestir: 86230
Tölur uppfærðar: 22.11.2024 02:57:32