M.C. Drullusokkar Stofnað 04.05.06.

Hvetjum félagsmenn til að senda inn myndir af sér og hjólunum sínum í félagaskrána.
Einnig ef þið eruð með skemmtilegar hjólamyndir, fréttir eða aðrar tilkynningar sem eiga heima hér.
[email protected]

19.10.2013 23:22

Enn ein góð frá Brunanum


Fyrsta súperbæk heimsins Vincent Black Shadow.

Stór fullyrðing en það gætu fáir rengt hana, því Vincentinn var langt langt á undan sínum tíma bæði í stærð mótors, afli og akturseiginleikum, ég tala nú ekki um útlit hjólsins sem enn í dag láta menn og konur snúa sér í marga hringi þegar þau sjá hjólið aka framhjá. Framleiðslu hjólsins var reyndar hætt fyrir örfáum árum eða 1955, þó reyndar hafi nokkrir haldið áfram að framleiða nokkrar útgáfur af hjólinu, þ.e.a.s. notað Vincent mótorinn. Frægasti Vincentinn var eflaust The Black Shadow (Honda hefur stolið hluta nafnsins) var kynntur til sögunnar árið 1948, með 998 cc  V mótor. Aðrir á markaðinum eins og Norton, BSA, Triumph og jafnvel Brough Superior verksmiðjurnar áttu engan mótleik og voru langt frá í öllu í samanburði við Vincent hjólin. Þegar Shadowinn var prufaður af ökumanni frá Motor Cycle blaðinu náði ökumaður 122 mílna hraða og gleymum ekki að á þeim tíma var eina bensínið á markaðinum í Englandi 72 octane og blandað með steinolíu, þjappa mótors var 7.3 á móti 1. Á þeim tíma var meðalhraði ökutækja og þar á meðal annarra mótorhjóla um 40-50 mílur á klst. og þau aflmestu náðu kannski 80 mílum, reyndar var sagt að Ariel Square four hjólið næði tonninu þ.e. 100 mílum, jú svo náðu viss hjól frá Norton og Triumph tonninu sem var talið takmark hjá alvöru hjólamönnum, en Vincentinn fór létt með að ná því og gott betur og var kallað á sínum tíma hraðskreiðasta mótorhjól heimsins. Upphaf Vincent hjólsins má rekja til manns að nafni Howard Raymond Davies sem stofnaði mótorhjólafyrirtækið HRD á því herrans ári 1924 ásamt félaga sínum E.J.Massey. Þeir hófu framleiðslu á HRD mótorhjólum og oftast var notaður JAP mótor í þessi hjól. Síðan var það árið 1928 að Philip Vincent kaupir HRD og skráir fyrirtækið undir nýju nafni Vincent HRD co.ltd. En fljótlega varð nafninu breytt í The Vincent því sumir vildu rugla HRD við Harley nokkurn Davíðsson. Fyrstu mótorhjól Vincent voru áfram með eins cylindra JAP vélum sem og Rudge-Python vélum, en vegna slæmrar reynslu með þessa mótora og þá sérstaklega í keppnum þá ákvað Philip ásamt manni að nafni Phil Irving að smíða sína eigin vélar. Philip reyndi einnig fyrir sér í smíði þriggja hjóla öku- tækja. Það var síðan árið 1931 að fyrsta nýi mótorinn hannaður af Phil Irving leit dagsins ljós og var það 500 cc eins strokka mótor. Phil þessi hætti síðan en kom aftur til baka árið 1943. Vincent verksmiðjurnar framleiddu nokkrar týpur af hjólum frá upphafi t.d. Meteor, Comet, Rapide ofl. Það var síðan árið 1936 að sú vél sem notuð var til árisins 1955 leit dagsins ljós og það var 998 cc V mótor 47.5 gráður bil/halli og yfirliggjandi ventlar (knastás niðri, undirlyftu-stangir og rokkerarmar). Þessi mótor var 84 X 90mm, þjappa var 6.8:1 og sagður 45 bhp. Blöndungur var frá Amal, gírkassi var fjögurra gíra frá Burman og notuð var blautkúpling. Þessi fyrstu hjól voru sögð ná 180 km hraða. Það var síðan árið 1948 að fyrsta súperbæk þess tíma kom á markaðinn frá Vincent og það var hið fræga Black Shadow með sömu CC stærð en 50 gráðu mótor, þjappa hafði verið hækkuð í 7.3:1 Grindin var notuð sem olíutankur og vélin var notuð sem hluti af grind. Framendi var það sem kallað var Girdraulic, frambremsur  var það sem kallað er singleleading  en tveggja borða. Hámarkshraði var sagður 201 km á klst. með þessum 54 bhp mótor. Á sama tíma var framleitt kappaksturhjól sem var í raun eins og Shadowinn en kallað Lightning, en létt verulega önnur gíring eftir brautum o.s.frv. Eins og áður sagt var ekkert hjól í heiminum sem var með tærnar þar sem Shadowinn var með hælana, yfirburðir þessa súperbæks voru gífurlegir.

 

 

 

 Ekki má gleyma sögulegri stund þegar Rolland "Rollie" Free slóð hraðametið árið 1948 á Vincent á Bonnieville saltsléttunum í USA,  klæddur sundskýlu og strigaskóm og myndin af Rollie er talin ein frægasta mótorhjólamynd allra tíma (nú er öruggt að við fáum mynd af Tryggva íklæddum sundskýlu á HONDU). Og svo var það Russel Wright sem setti annað hraðamet árið 1955 á Vincent mældur hraði var 297. 46 km á klst.  Smíði síðasta Vincent mótorhjólsins lauk í desember 1955, en sögu þessa fræga mótorhjóls var alls ekki lokið því hinir ýmsu aðilar hafa notað þennan einstaka mótor í smíði mótorhjóla sinna t.d. Egli.

Óli bruni # 173


Flettingar í dag: 528
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 884
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 1408582
Samtals gestir: 86217
Tölur uppfærðar: 22.11.2024 01:54:17