M.C. Drullusokkar Stofnað 04.05.06.

Hvetjum félagsmenn til að senda inn myndir af sér og hjólunum sínum í félagaskrána.
Einnig ef þið eruð með skemmtilegar hjólamyndir, fréttir eða aðrar tilkynningar sem eiga heima hér.
[email protected]

03.05.2015 15:04

Ferðasagan frá "76 part 6.


Ferðasagan frá 1976 partur  6.

Skrúður og Honda 1000!
 Það hafði tekið okkur rúma 14 tíma að gerast brottrækir frá Nobbfirði, inn og út, en í Egilsbúð voru harðir ballarar að plana ferð kvöldið eftir á Fáskrúðsfjörð. Ball í Skrúð væri málið.
 Þetta var í leiðinni og allt svo við settum kvöld á Fáskrúðsfirði sem gó.
Fyrst fleygðum við okkur samt í móann, Eskifjarðarmegin við Oddskarðið. Svolítið þreyttir og slæptir strákarnir eftir síðustu ævintýri.
 Það er ekkert langt á kortinu yfir á Fáskrúðsfjörð en við vorum samt allann daginn á leiðinni, með dekkjaviðgerðum og almennu slóri. Þegar við komum inn aðalgötuna í þorpinu, salla rólegir, komu peyjar hlaupandi meðfram og á eftir okkur, öskrandi Váá! Honda 1000, Honda 1000! Við fórum og tjölduðum og þeir voru alltaf á kantinum, alveg að drepast úr áhuga á þessum ofurhjólum. Seinna þegar ég var að segja þessa sögu einhversstaðar, kom í ljós að þetta voru Steini Glæpur, Ingþór Ormur, Egili og félagar. Upprennandi harðir hjólamenn framtíðar. Fáskrúðsfjörður var fínn í sól og hita. Ballið entist fram að fótaferðatíma og gaman að vera til. Einar var kominn á trúnó svo tjaldið var upptekið og ég gisti einhversstaðar.



Hér situr Einar á CB 500 four Hondu sinni og sokkarnir sennilega notaðir sem grjóthlífar.

 Ferðin suður á við gekk vel framan af, nema hvað við vorum seint á ferðinni og vorum að keyra út Hamarsfjörðinn sunnanverðann í ljósaskiftunum um kvöldið. Skyggni var skrítið. Ég tek eftir því að það er enginn rykmökkur lengur í speglunum. Sný við og keyri fram á Einar liggjandi í grjóthrúgu og hjólið ekki langt frá í rusli. Karlinn leit illa út þegar ég kom að. Hreyfingarlaus, glerið í hjálminum brotið innávið og blóð seitlaði niður hálsinn. Mér leist ekkert á þetta. Þorði ekki að eiga við hjálminn, en talaði við hann og tók í hendina á honum. Þá fór hann að umla eitthvað og hreyfa sig. Smám saman hrökk hann í gang og fór að hreyfa útlimi. Ég fiskaði brotin af glerinu út úr hjálminum og þá kom í ljós að hann var skorinn í andlitinu. Önnur löppin var slatta rifin og tætt en annars var hann í einu lagi. Við teipuðum bón tusku á löppina og límdum yfir sárin í andlitinu og fórum að skoða hjólið.
 Brutum stýrið við að reyna að rétta það. Snérum ofan af göfflunum. Mælarnir skemmdir, einhver stefnuljós, smá beyglur og rispur. Reyndum að starta en mótorinn var fastur. Þetta var ekki spennandi, svona rétt undir nóttina svo við ákváðum að reyna að komast til byggða. Bjuggum til spotta úr farangurs böndum og af stað. Verulega rólega þar sem talsvert snúið var fyrir Einar, lemstraðan og auman að halda í horfinu með stýri öðru megin. Það var nótt þegar við tjölduðum á Djúpavogi.
 Byrjuðum daginn eftir á viðgerðarhléi fyrir Einar. Héraðshjúkkan lappaði upp á sárin að bað kallinn að hafa sig hægan næstu daga, svo ég hafði nægan tíma til að líta á hjólið. Mótorinn varð lítið mál. Alternatorshlífin hafði spungið út frá annarri stýringunni og skekkst svo statorinn klemmdi rótorinn. Það var sett í horfið og naddan datt í gang. Verra var með stýrið.



500 Hondan orðin mælalaus eftir krassið og ég að gera við sprungið dekk að vanda.

 Þar sem Djúpivogur var ekki alveg miðpunktur hraðsendingakerfis Vestmannaeyja á þessum tíma, sáum við ekki nýtt stýri detta inn um rennilásinn á tjaldinu næstu daga. Góð ráð voru rándýr.
 Hjálpsamur heimamaður sagðist vita um mótorhjól í ólestri vestur í sveit og bauðst til að sækja af því stýrið. Við vorum tárum næst af þakklæti. Hann kom daginn eftir, fullur af áhuga með stýri af CS 50, árgerð gamalt. Við reyndum af fullum vilja að skítmixa það á, sem var vonlaust þegar  "1/8 vantaði á þykktina. Þetta spurðist út um þorp og sveit og skömmu síðar barst okkur addressa járnsmíða töframannsins. Þangað fór ég með stýrið og á korteri var búið að gera splæs og sjóða.
 Það var ekki vesenið á þeim bæ. Alvöru menn.


 
 Um þetta leiti þurfti að finna símstöð þar sem ekkert fékkst lengur fyrir lónna í veskinu nema súpa í sjoppunni, sem var reyndar líka hótelið. Mamma Tóta reddaði okkur áfram og Einar á Kapinni reiknaði greinilega með mér í Norðursjóinn á nýja bátnum. Einar Arnar á Brekku var orðinn ferðafær og við leggjum á mölina suður.
 Komum á Höfn í sudda fyrir lokun. Humarstelpur með herbergi á verbúð buðu uppá þurk og mat sem mötuneytið hafði týnt. Þetta urðu fínirs dagar á Höfn. Hvers vegna við yfirgáfum þessa paradís man ég ekki lengur. Kannski uppgötvuðum við að það voru bara tveir tankar á mann eftir í veskinu. Allavega var ákveðið að keyra í einum rykk til Reykjavíkur.

Framhald síðar. 

Flettingar í dag: 703
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 372
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 787715
Samtals gestir: 55903
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 13:02:16